Strengleikar

Kolbrún Haraldsdóttir

Eiríks saga víðfǫrla í miðaldahandritum

Fimmtudaginn 17. september 2015 kl. 16.30
Askja 132 — ath. nýjan stað

Kolbrún Haraldsdóttir
Kolbrún Haraldsdóttir

Eiríks saga víðfǫrla er varðveitt í u.þ.b. 60 handritum, sem má flokka í fjórar mismunandi gerðir, A, B, C og D. Af þeim eru A- og B-gerðirnar frá miðöldum, og C-gerðin, sem einvörðungu er varðveitt í handritum frá 17. öld, hefur eflaust verið það sömuleiðis, en D-gerðin er blendingsgerð líklegast frá 17. öld. Frá miðöldum eru því aðeins varðveitt handrit af A- og B-gerð, samtals fimm talsins: Af A-gerð: 1) GKS 1005 fol., Flateyjarbók, frá 1387 (sagan heil), 2) AM 720 a 4to VIII frá fyrri helmingi 15. aldar (rúmlega þriðjungur varðveittur) og 3) AM 557 4to, Skálholtsbók, frá því um 1420 (tæplega helmingur varðveittur); af B-gerð: 4) AM 657 c 4to frá síðari helmingi 14. aldar (sagan heil) og 5) GKS 2845 4to frá því um 1450 (rúmlega helmingur varðveittur). Ekki er ætlunin að ræða gerðirnar fjórar og þau textafræðilegu rök, sem flokkun handritanna er reist á, heldur verður hugað að því, hvaða orsakir hafa legið til þess, að Eiríks saga víðfǫrla var skráð í fyrrnefnd fimm miðaldahandrit og hvers vegna henni var skipað þar niður í handritunum, sem raun ber vitni. Ástæða er til að ætla, að ekki einvörðungu efni sögunnar, heldur einnig sögusýn miðalda hafi skipt höfuðmáli. Verður hugað að eftirmála, sem Jón Þórðarson, skrifari Flateyjarbókar, bætti við söguna, þar sem hann gerir grein fyrir, hvers vegna hann setti söguna fremst í Flateyjarbók. Verða ummæli Jóns skoðuð nánar og kannað, hvort sömu ástæður og í Flateyjarbók kunni að hafa verið fyrir skrásetningu sögunnar í hinum miðaldahandritunum fjórum.

Kolbrún Haraldsdóttir lauk cand.mag. prófi í íslensku frá Háskóla Íslands, stundaði framhaldsnám í miðaldafræðum við Ludwig-Maximilians-Universität München, var „førsteamanuensis“ í íslensku við háskólann í Björgvin 1988–1990, sendikennari í íslensku við háskólann í Erlangen 1991–2013 og jafnframt fastráðinn fræðimaður frá 2004. Rannsóknir hennar eru á sviði handrita- og textafræði og hafa einkum snúist um Flateyjarbók.