Strengleikar

jkfaugl

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir

„Bækr nem þú blíðliga“: Konungs skuggsjá, konur og handrit frá síðmiðöldum

Þriðjudaginn 9. febrúar 2016 kl. 16.30
Lögbergi 101

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir
Jóhanna Katrín Friðriksdóttir

Konungs skuggsjá, norskt rit sem samið var um miðja 13. öld við hirð Hákonar Hákonarsonar, naut mikilla vinsælda á Íslandi á 15. og 16. öld eftir fjölda handrita að dæma. Hægt er að rekja mörg handritanna til valdaætta í Eyjafirði og virðist Konungs skuggsjá hafa notið meiri vinsælda þar en annars staðar á landinu. Nokkur þessara handrita voru pöntuð af eða rituð fyrir konur og sömuleiðis gengu þau sum í erfðir í kvenlegg allt þar til Árni Magnússon komst yfir þau. Í fyrirlestrinum verða þessi handrit skoðuð nánar og ég mun gera grein fyrir uppruna þeirra, eigendasögu, efnislegum einkennum og öðrum textum í þeim eftir því sem efni standa til. Af þessum upplýsingum er hægt að draga ýmsar ályktanir og ég mun leitast við að svara því, hvað þessi áhugi á Konungs skuggsjá og handritin hennar getur sagt okkur um bókmenntir og menningu í efri stéttum Íslands á síðmiðöldum, sérstaklega um viðhorf til erlendrar hirðmenningar og konungsvalds, en einnig til trúar og góðra dyggða. Í þessu samhengi mun ég einnig velta upp spurningum um hlutverk kvenna í bókmenningu sem og menntun barna. Þannig mun ég skoða íslenska menningu og sögu síðmiðalda í víðara samhengi út frá einum texta sem er ekki venjulega tengdur við Ísland á þessum tíma.

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir er Marie Curie styrkþegi á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stundar þar rannsóknir á bókmenntum og handritamenningu síðmiðalda. Hún lauk doktorsprófi frá Oxford árið 2010 og fjallaði doktorsritgerð hennar um konur og vald í norrænum fornbókmenntum. Jóhanna hefur birt ýmsar greinar um miðaldabókmenntir og ritstýrt bæði tímaritinu Griplu og greinasafninu Góssið hans Árna.