Sturlungaöld

06 Sturlunga Gudrun og Gudvardur.002

Guðrún Harðardóttir

Stofur á Sturlungaöld

Stofur og notkun þeirra út frá vitnisburði Sturlungu og biskupasagna

Fimmtudaginn 10. desember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Gudrun Hardardottir
Guðrún Harðardóttir

Í frásögnum eins og í Sturlungusafninu og biskupasögum er bakgrunnurinn jafnáhugaverður og framvinda sagnanna. Þar kemur fram mikilvæg innsýn í híbýli og lifnaðarhætti samtímans.

Í þessum fyrirlestri er ætlunin að skoða sérstaklega hvernig stofur birtast í frásögnum Sturlungu og biskupasagna. Vegna eðlis miðilsins eru einkum möguleikar á að skoða notkun þessara rýma en minna er um upplýsingar um byggingarlag. Í sumum tilvikum má þó ráða einhverjar upplýsingar um innréttingar, svo sem í frásögninni um Flugumýrarbrennu. Þar sem eitthvað má ráða af sögunum um byggingarlag verður það dregið fram sérstaklega.

Athugaðar verða mismunandi gerðir stofu, svo sem litlu stofur, biskupsstofur, ábótastofur og almannastofur, svo einhver dæmi séu nefnd. Meginmarkmið fyrirlestursins verður einkum að draga stofugerðirnar fram og kynna fjölbreytnina. Einnig að greina hugsanlegan notkunarmun eftir því um hvers konar stofu er að ræða. Notkun höfðingja á litlu stofum verður skoðuð sérstaklega og kannað verður á hvers konar bæjum slíkar stofur eru nefndar og hvað fer fram í þeim.

Reynt verður eftir föngum að bera þetta íslenska efni saman við það sem þekkt er um stofur í Noregi og notkun þeirra. M.a. verður horft til veislusiða norsku hirðarinnar í því efni. Einnig verða borin saman íslensku og norsku stofuhugtökin.

Guðrún Harðardóttir er sérfræðingur við húsasafn Þjóðminjasafns Íslands. Rannsóknir hennar lúta einkum að kirkjubyggingum miðalda og ýmsum öðrum þáttum byggingararfsins.

—o—

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Handrit og skrift á Sturlungaöld

Fimmtudaginn 10. desember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

GMG
Guðvarður Már Gunnlaugsson

Fyrsta málfræðiritgerðin er talin vera samin um miðja 12. öld. Höfundur hennar nefnir lög, áttvísi þýðingar helgar og þau hin spaklegu fræði, er Ari Þorgilsson hafi á bækur sett af skynsamlegu viti, sem dæmi um bókmenntir sem voru til á hans dögum.

Í Hungurvöku og Jóns sögu helga eru nefndir nokkrir góðir ritarar svo sem Þorvarður knappur, Klængur biskup og Þorgeir prestur á Hólum. Í Heimskringlu er sagt frá því að Eiríkur Oddsson hafi ritið bók þá er Hryggjarstykki heitir og í Sturlungu segir frá því að Ingimundur Þorgeirsson prestur hafi þurrkað bækur sínar eftir að hafa misst bókakistu sína fyrir borð. Í máldögum eru bækur oft taldar upp meðal eigna kirkna en hver kirkja varð að eiga messubækur.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um heimildir um bókagerð, bréfaskriftir og bókmenntaiðkun á Íslandi frá 11. öld fram til loka Sturlungaaldar. Þessi menningarstarfsemi verður sett í samhengi við varðveitt íslensk handrit frá 12. og 13. öld — jafnt á norrænu sem latínu — fjölda þeirra og hvernig þau skiptast á milli bókmenntagreina. Sérstök áhersla verður lögð á hlutverk kirkjunnar í bókagerð.

Guðvarður Már Gunnlaugsson er handritafræðingur og rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknir hans lúta einkum að íslenskum handritum, aldri þeirra og uppruna, þróun skrifleturs á Íslandi og greiningu rithanda.