Sturlungaöld

armannadalheidur

18. febrúar 2016

Ármann Jakobsson

Ferð án fyrirheits

Upphaf Íslendingasagnaritunar og endalok þjóðveldisins

Fimmtudaginn 18. febrúar 2016 kl. 16:30

Oddi 101

Ármann Jakobsson
Ármann Jakobsson

Það hefur verið haft fyrir satt undanfarna áratugi að Sturlungaöldin sé jafnframt sagnaritunaröld og sem kunnugt er lýsti Sigurður Nordal þróun Íslendingasagna­ritunar í fimm þrepum þar sem 13. öldin var í aðalhlutverki en aðeins ódæmi­gerðar sögur ritaðar eftir 1300. En hversu öruggar eru þær niðurstöður og hvaða máli skiptir fyrir hugmyndir okkar um Íslendingasögur hvort drjúgur hluti þeirra var ritaður í þjóðveldi eða í konungsríki? Í erindinu verður farið yfir þessa umræðu frá Sigurði Nordal til okkar daga og sjónum sérstaklega beint að elstu Íslendingasögunum og hugmyndum um uppruna þeirra.
Ármann Jakobsson lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2003. Hann er nú prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Meðal nýlegra bóka eftir hann eru Nine Saga Studies: The Critical Interpretation of the Icelandic Sagas (2013), Íslendingaþættir: saga hugmyndar (2014) og A Sense of Belonging: Morkinskinna and the Icelandic Identity c. 1220 (2014).

18. febrúar 2016

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Um sagnamenningu, miðlun og frumskeið fornaldarsagna

Fimmtudaginn 18. febrúar 2016 kl. 16:30

Oddi 101

Aðalheiður Guðmundsdóttir
Aðalheiður Guðmundsdóttir

Í fyrirlestrinum verður varðveisla fornaldarsagnaefnis á munnlegu stigi skoðuð og gerð verður grein fyrir elstu heimildum um sagnaskemmtun þar sem fornaldarsögur eða skyldar sögur ber á góma. Áhersla verður þó einkum lögð á frásögn Þorgils sögu og Hafliða af þeim Hrólfi frá Skálmarnesi og Ingimundi presti Einarssyni, en báðir skemmtu þeir með sögum og kvæðum í hinu fræga Reykjahólabrúðkaupi árið 1119. Í tengslum við þetta verður rætt um hugtakið „söguminni“, sem í samhengi þess efniviðar sem hér um ræðir má segja að feli í sér tvennt: sögulegar minningar og „sameiginlegt“ minni, sem ber þá vott um almenna þekkingu á efniviði sagnanna og sameiginlegri heimsmynd þeirra.

Í framhaldinu verður rætt um eðli fornaldarsagnaefnis og hlutverk þess í samfélaginu. Að sumu leyti einkennist það af endurliti og er þar með eins konar arfur sem rekja má til fyrstu alda Íslandsbyggðar. Með tímanum verður efniviðurinn svo að skriflegum sögum, bókmenntum, sem færa fólkinu minningar úr fortíðinni og um fortíðina, og tengingar aftur í tímann. Á sama tíma tilheyra sögurnar þó einnig sjálfsmyndarsköpun hins unga samfélags, og birtingarmyndir þeirra á hverjum tíma fyrir sig eru því ekki eingöngu háðar fortíðinni heldur ekki síður hlutverki þeirra í samtímanum.

Að lokum verður litið til skráningar sagnanna og á hvern hátt sagnaritarar fornaldarsagna skera sig frá þeim sagnariturum sem leituðust við að skrá sögulegan fróðleik eða „sagnfræði“. Hvorir tveggju voru lærðir menn en viðhorf þeirra til sagnaefnisins og hinna baklægu munnmælasagna var engu að síður með ólíku sniði.

Aðalheiður Guðmundsdóttir er dósent í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún einkum fengist við miðaldabókmenntir með áherslu á fornaldarsögur Norðurlanda og tengingu þeirra við samevrópska sagnamenningu, munnlega hefð, rímur og fornminjar. Hún var áður dósent í þjóðfræði við sama háskóla.