Kolfinna Jónatansdóttir
„Áður veröld steypist“
Um ragnarök Sturlungaaldar
31. mars 2016 kl. 16:30
Öskju 132

Miðaldaheimildir um ragnarök eru fáar. Ítarlegustu frásögnina er að finna í Gylfaginningu, verki sem eignað er einum af höfðingjum Sturlunga. Allt verkið snýst um ragnarök, stöðugt er vísað til þess sem gerist í lok veraldar og í lokaköflunum eru ólíkar heimildir fléttaðar saman í eina heild sem lýsa endalokunum og nýju upphafi. Í 51. kafla segir frá aðdraganda ragnaraka og lokabardaganum milli guða og óvætta og í lok kaflans er vitnað til nokkurra erinda Völuspár sem heimildar. Eitt erindið er þó inni í kaflanum sjálfum, að því er virðist til að leggja áherslu á upphafið að endalokunum.
„En áður [en fimbulvetur hefst] ganga svo aðrir þrír vetur að þá er um alla veröld orustur miklar. Þá drepast bræður fyrir ágirni sakir, og enginn þyrmir föður eða syni í manndrápum eða sifjasliti. Svo segir í Völuspá:
Bræður munu berjast
og að bönum verðast,
munu systrungar
sifjum spilla.
Hart er með höldum,
hórdómur mikill,
skeggöld, skálmöld,
skildir klofnir,
vindöld, vargöld
áður veröld steypist.“
Þetta erindi er í Gylfaginningu sett í annað samhengi en í Völuspá þar sem það birtist í miðri ragnarakalýsingu. Efni þess er mjög lýsandi fyrir atburði Sturlungaaldar og því er áherslan sem lögð er á það í Gylfaginningu áhugaverð, þar sem slíkir atburðir eru upphafið að endalokum heimsins. Enn fremur er áherslan sem lögð er á það í Gylfaginningu og Skáldskaparmálum að jötnar og æsir séu náskyldir, sem og að Óðinn sé alfaðir og faðir allra goða, áhugaverð í ljósi þess að helstu ættir Sturlungaaldar voru náskyldar og ættföður Sturlunga, Hvamm-Sturlu, er líkt við Óðin.
Í þessum fyrirlestri verður annars vegar fjallað um hliðstæður sem sjá má í lýsingu á ragnarökum og þátttakendum þeirra í Gylfaginningu og þeim höfðingjum sem kljást í Sturlungu, sem og dómsdagsímyndum í Sturlungu. Hins vegar verður því velt upp hvort Sturlungaöld og atburðir hennar hafi haft áhrif á þá áherslu sem lögð er á ragnarök og aðdraganda þeirra í Gylfaginningu.
Kolfinna Jónatansdóttir er doktorsnemi í íslenskum miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands og hefur einkum fengist við rannsóknir á goðafræði. Doktorsritgerð Kolfinnu fjallar um ragnarök.
—o—
Viðar Pálsson
Ofbeldi og sagnaritun á öld Sturlunga
31. mars 2016 kl. 16:30
Öskju 132

Í fyrirlestrinum verður farið nokkuð vítt yfir þá útbreiddu skoðun að Sturlungaöld hafi einkennst af ofbeldi og upplausn umfram það sem áður gerðist í íslensku samfélagi og jafnvel lengst af síðan. Sjónum verður einkum beint að tvennu: Annars vegar að Sturlungu sem heimild um fordæmalaust ofbeldi og upplausn, hins vegar að viðleitni fræðimanna, einkum á 20. öld, til þess að setja ritun íslenskra fornsagna í beint samhengi við slíkt aldarfar. Hið síðara byggir mjög á hinu fyrra. Eftir því sem tími vinnst til verður vísað til rannsókna s.l. 20–30 ára á ofbeldi í evrópsku miðaldasamfélagi sem nýst geta við hugleiðingar um þessi efni en hafa lítt eða ekki komið til umræðu hér.