Sturlungaöld

Guðni Th. Jóhannesson

Sundrung og svik

Sturlungaöldin sem vopn í stjórnmálabaráttu okkar daga

Fimmtudaginn 1. október 2015 kl. 16.30
Öskju 132 — ath. nýjan stað

Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson

Í erindinu rek ég hvernig menn vitna gjarnan í atburði Sturlungaaldar í pólitískum átökum, máli sínu til stuðnings. Ég horfi einkum til áranna frá lýðveldisstofnun til samtímans og legg áherslu á tvo meginþætti.

Fyrst ræði ég hvernig valdhafar hafa hvatt til samstöðu með því að segja að sundrung landsmanna á Sturlungaöld hafi kallað aldalanga ógæfu yfir þjóðina. Síðan sýni ég hvernig „svikin“ árið 1262 hafa verið rifjuð upp í deilum um utanríkismál og alþjóðasamninga. Þá beini ég sjónum helst að þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu, þorskastríðunum, Icesave-deilunni og hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu. Með þessum hætti sýni ég hvernig saga Sturlungaaldar hefur verið notuð — eða misnotuð.

Í seinni hluta erindisins ræði ég svo almennt hvernig valdhafar og stjórnmálamenn freistast til þess að beita sögunni sem vopni í sinni pólitísku baráttu. Því næst vek ég máls á því að á okkar dögum vilja fræðimenn ekki lengur taka þátt í slíkum hasar, ólíkt því sem áður var þegar þeir stóðu þétt að baki ráðamönnum í baráttunni fyrir sjálfstæði frá Dönum.

Að lokum velti ég því fyrir mér hvort fræðasamfélagið þurfi ekki að reyna að segja stjórnmálamönnunum betur frá nýjustu rannsóknum á Sturlungaöldinni svo að þeir hætti að sjá hana í úreltu ljósi liðinnar sjálfstæðisbaráttu, misskilinnar sundrungar og meintra svika.

Guðni Th. Jóhannesson er dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, doktor frá Queen Mary, University of London. Guðni rannsakar einkum samtímasögu Íslands og hefur skrifað fjölda greina og bóka á því sviði.