Sturlungaöld

04 Sturlunga Hjalti og Arni.002

Hjalti Hugason

Guðmundur Arason — áhrifavaldur í aðdraganda Sturlungaaldar

Hjalti Hugason
Hjalti Hugason

Fimmtudaginn 12. nóvember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Guðmundur Arason Hólabiskup var umdeildur kirkjuleiðtogi og hefur löngum verið gagnrýndur í söguritun og sagnfræðirannsóknum. Guðmundur var mikilvægur áhrifavaldur í kirkjunni og samfélaginu við upphaf Sturlungaaldar.

Guðmundur virðist snemma hafa orðið andlegur leiðtogi fjölda fólks og áhrifamaður í kirkjunni víða um land en ekki aðeins í Hólabiskupsdæmi. Hlutverk hans í þessu efni er athyglisvert miðað við veika stöðu hans í upphafi prestsskapar en hann var prestur í rýrum þingum og mætti jafnvel andstöðu biskups. Sem heimilisprestur eins af helstu höfðingjum Norðlendinga styrktist staða hans og varð hann tvímælalaust áhrifamesti trúarleiðtogi landsins þegar fyrir biskupskjör sitt.

Biskupskjör Guðmundar braut í bága við ríkjandi hefð og fljótlega komst hann í mikla andstöðu við helstu stuðningsmenn sína. Stóðu deilur hans og höfðingja út biskupstíð hans. Þetta jók á þá ólgu sem einkenndi Sturlungaöldina og hefur því verið haldið fram að Guðmundur beri öðrum fremur ábyrgð á þeim atburðum sem urðu við lok hennar er landið komst undir erlend yfirráð. Óhætt er því að fullyrða að Guðmundur hafi verið einn af helstu áhrifavöldunum í íslensku samfélagi í aðdraganda og við upphaf Sturlungaldar.

Í fyrirlestrinum verður leitast við að gera grein fyrir helstu áhrifum Guðmundar á samtíð sína og skýra stefnumál hans, atferli og háttarlag. Beitt verður kirkjusögulegri aðferð, sem og persónusögulegri nálgun þar sem tekið er tillit til uppeldis og þroskaferlis Guðmundar. Leitast verður við að sýna fram á að persónuleg, traumatísk reynsla hans kunni að hafa valdið miklu um það „ofstæki“ sem honum hefur verið ætlað.

Hjalti Hugason lauk doktorsprófi í almennri og norrænni kirkjusögu frá Uppsalaháskóla 1983. Doktorsritgerð hans fjallaði um Bessastaðaskóla og íslensku prestastéttina 1805–1846. Hjalti er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann var ritstjóri Kristni á Íslandi (Rvík 2000) og aðalhöfundur fyrsta bindis um kristnitökuna og upphaf kristni.

—o—

Árni Hjartarson

Guðmundur góði Arason og brunnar hans

Fimmtudaginn 12. nóvember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Árni Hjartarson
Árni Hjartarson

Guðmundur biskup Arason hefur verið nefndur þjóðardýrlingur Íslendinga. Til eru af honum fleiri kraftaverkasögur en nokkrum öðrum og gildir þá einu hvort um er að ræða fornritin eða þjóðsögur skráðar á seinni öldum. Örnefni tengd honum eru til um allt land jafnt á brunnum, lindum, laugum, lækjum, steinum, vöðum, hlíðum eða hálsum. Fyrirlesturinn fjallar um Gvendarbrunna og aðrar lindir og laugar, læki og vötn sem Guðmundur góði vígði eða á að hafa vígt. Alls er vitað um hátt í 230 Gvendarbrunna á landinu. Landfræðileg dreifing þeirra verður skoðuð og vatnafræðilegir þættir, s.s. uppkomustaðir, rennsli, hiti, nafngiftir o.fl. Einnig verður fjallað um þær kröfur sem menn gerðu til brunna varðandi vatnsgæði, aðkomu og aðra umhverfisþætti. Rætt verður um hvort Guðmundur hafi í raun vígt alla þessa brunna eða hvort þeim hafi haldið áfram að fjölga eftir hans dag. Guðmundur ferðaðist vítt og breitt um landið á langri og stormasamri ævi sinni ýmist sem vinsæll höfðingi og aufúsugestur hvar sem hann fór eða sem hrakningsmaður á flótta undan óvinum sínum og hvergi velkominn. En hvernig sem á stóð var hann ólatur við vatnsvígslur og yfirsöngva. Sýnd verða kort með farleiðum Guðmundar um landið og hvernig Gvendarbrunnar virðast víða varða þær leiðir. Að lokum verður getið um sögur og sagnir sem tengjast brunnunum og átrúnað sem enn helst á lækningamætti vatnsins.

Árni Hjartarson er jarðfræðingur með doktorspróf frá Hafnarháskóla. Hann sinnir kortagerð og rannsóknum á jarðhita og grunnvatni hjá Íslenskum orkurannsóknum. Hann er virkur í hagsmunasamtökum náttúrufræðinga og er formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags. Hann hefur ritað bækur og greinar um fræði sín og fléttar oft saman jarðfræðirannsóknum og sagnfræði.