Sturlungaöld

Sturlungaöld veggspjald 01

Fyrirlestraröð Miðaldastofu Háskóla Íslands 2015–2016: fyrirlestrakall

Sturlungaöld

Miðaldastofa Háskóla Íslands boðar til fyrirlestraraðar næstkomandi vetur (2015–2016) um Sturlungaöld. Óskað er eftir fræðilegum fyrirlestrum á sem flestum fræða-sviðum (bókmenntafræði, fornleifafræði, mannfræði, málfræði, sagnfræði, þjóðfræði og örnefnafræði, svo nokkur séu nefnd) um nýjar rannsóknir á því tímabili sem nefnt hefur verið Sturlungaöld. Meðal umfjöllunarefna mætti nefna rannsóknir á íslenskum valdaættum og samþjöppun valds innanlands, þjóðveldi og konungsríki, erlendu valdi, lénsmönnum og áhrifamætti Noregs-konungs, íslensku kirkjunni og erkistólnum í Niðarósi, sagnamenningu, sagnaritun, fræðastarfi og vitaskuld sagnasamsteypunni Sturlungu. Markmiðið er að fá þverfaglegt yfirlit yfir helstu nýjungar í rannsóknum á þessu tímabili og er stefnt að því að gefa fyrirlestrana út á bók í ritrýndri útgáfu.

Fyrirlestrahaldið verður með svipuðu sniði og verið hefur á vegum Miðaldastofu. Gert er ráð fyrir 35–40 mínútna löngum fyrirlestrum til flutnings síðdegis (venjulega á fimmtudegi kl. 16.30) og verður þeim dreift yfir veturinn.

Áhugasamir sendi Haraldi Bernharðssyni (haraldr@hi.is) titil og 250 orða efniságrip eigi síðar en 15. ágúst næstkomandi.