Helgi Þorláksson
Gissur meðal Gaddgeðla
Um ætlaða Suðureyjaferð Gissurar Þorvaldssonar
Fimmtudaginn 31. október 2024 kl. 16.30 / Thursday, October 31, 2024, at 16.30
Fyrirlestrasal Eddu / Edda auditorium
Aðra aðalgerð Sturlungu má skilja þannig að Gissur Þorvaldsson hafi ferðast frá Noregi og dvalist á Suðureyjum fyrir vestan Skotland veturinn 1257-8, síðan farið aftur til Noregs sumarið 1258, hlotið jarlstign og haldið að svo búnu til Íslands. Hin ætlaða Suðureyjaferð er sjaldan rædd í skrifum íslenskra fræðimanna. Hér verður grafist fyrir um hvaðan vitneskjan muni komin um förina og hvort hún sé trúverðug. Fyrirlesari færir rök fyrir því að Gissur hafi verið á Suðureyjum og farið þangað á vegum Noregskonungs. Í fyrirlestrinum verður leitast við að setja förina í samband við ákafa viðleitni Hákonar gamla Noregskonungs til að mynda stórveldi í Norður-Atlantshafi. En hvert var mikilvægi ferðarinnar fyrir Gissur og hvaða áhrif hafði hún á verkefnið sem honum var falið, að koma Íslandi undir konung? Algengt var að telja, og er kannski enn, að Gissur hafi leikið tveimur skjöldum gagnvart konungi og jafnframt dulið eftir mætti fyrir löndum sínum að hann lofaði konungi að fá þá til að samþykkja skattgreiðslur. Er þetta líklegt fyrst hann naut svo mikils trausts konungs eins og Suðureyjaferðin bendir til? Leitast verður við að varpa ljósi á hverja Gissur fann helst að máli í Suðureyjum og gerð grein fyrir áleitni Skotakonungs við suðureyska höfðingja og mikilvægi norskra tengsla fyrir ráðamenn á eyjunum. Spurt er hvort saga norskrar áleitni í Suðureyjum geti ekki varpað nokkru ljósi á sambærilega áleitni á Íslandi.
Helgi Þorláksson er prófessor emeritus í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann fékkst í kennslu og rannsóknum einkum við Íslands- og Norðurlandasögu frá um 900 til um 1800, svið pólitískrar sögu, félagssögu og hagsögu. Doktorsritgerð hans fjallar um hagsögu Íslands á 13. og 14. öld og náin tengsl við Noreg. Fyrirlesari hefur tvisvar ferðast um Suðureyjar, í seinna skiptið í júní sl.
Fyrirlesturinn verður haldinn á íslensku og er öllum opinn. / The talk will be delivered in Icelandic and is open to all.